Doktorsvörn í lyfjavísindum frá Lyfjafræðideild

 Fréttir, Lyfjagerðarfræði, Nemar  Comments Off on Doktorsvörn í lyfjavísindum frá Lyfjafræðideild
May 112011
 

Í dag fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Martin Messner efnafræðingur doktorsritgerð sína „Hópmyndanir sýklódextrínflétta“ (Self-asselmbled cyclodextrin complexes). Andmælendur eru dr. Kim Lambertsen Larsen, dósent, Section of Chemistry, Department of Biotechnology, Chemistry and Environmental Engineering við Háskólann í Álaborg, og dr. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri hjá Matís ohf. Leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild. Dr. Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00. 

Ágrip úr rannsókn  Sýklódextrín eru hjálparefni sem notuð eru við lyfjagerð til að auka leysanleika og stöðugleika lyfja í vatni, og til að auka frásog lyfja frá meltingaveginum út í blóðrásina.  Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar með vatnssækið ytra yfirborð og fitusækið holrúm í miðju sameindarinnar.  Þau mynda vatnsleysanlegar fléttur með mörgum fitusæknum lyfjum með því að taka upp hluta lyfjasameindarinnar inn í holrúmið. Í þunnum vatnslausnum eru slíkar fléttur lyfja og sýklódextrína ríkjandi en þegar styrkur sýklódextrína eykst hópa sýklódextrín og sýklódextrínfléttur sig saman og mynda nanóagnir.  Yfirleitt er styrkur sýklódextrína í lyfjaformum nokkuð hár.  Markmið doktorsverkefnisins var að greina og flokka sýklódextrínnanóagnir.  Við rannsóknirnar voru hálfgegndræpar himnur notaðar til að flokka agnirnar eftir stærð og ákvarða styrk þeirra í lyfjalausnum.  Fasa-leysanleika mælingar voru notaðar til að rannsaka áhrif sýklódextrína á leysanleika lyfja í vatni. 

Niðurstöður rannsóknanna sýndu að það eru tengsl á milli áhrifa sýklódextrína á leysanleika lyfja og tilhneigingu þeirra til að mynda nanóagnir.  Jónun lyfja, hitastig lausnar, fjölliður og lífrænir leysar hafa áhrif á myndun nanóagna.  Myndun flétta lyfja og sýklódextrína eykur myndun nanóagna.  Þeir kraftar sem mynda nanóagnirnar eru mjög veikir þannig að þær leysast oft upp við síun lausnar í gegnum himnusíu og þegar hrært er í lausninni. 

Doktorsritgerðin er byggð á fjórum greinum sem hafa birst í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum og einu handriti sem sent hefur verið til birtingar. 

Doktorsnefnd skipuðu dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild, sem jafnframt var leiðbeinandi, dr. Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, dr. Ágúst Kvaran, prófessor við Raunvísindadeild, dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild, og dr. Marcus E. Brewster, sviðsstjóri hjá Johnson&Johnson í Belgíu.   

Verkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.  

Um doktorsefnið 

Martin Messner er fæddur í Þýskalandi árið 1980. Hann lauk meistaranámi í efnafræði með áherslu á efnafræði fjölliða frá Texhnishe Universität Dresden haustið 2007 og hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands í janúar 2008.  Martin er kvæntur Christine Messner og eina þau eina dóttur. 

 Posted by at 1:11 am
WP-Backgrounds Lite by InoPlugs Web Design and Juwelier Schönmann 1010 Wien