Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum frá Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

 Fréttir, Fréttir, Nemar, Nemar  Comments Off on Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum frá Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
Aug 292011
 

Í dag fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Helga Zoëga doktorsritgerð sína „Geðlyfjanotkun meðal barna: Samanburður á notkun ADHD lyfja á Norðurlöndunum og áhrif lyfjameðferðar við ADHD á námsárangur.“ (Psychotropic Drug Use among Children: A Comparison of ADHD Drug Use in the Nordic Countries and the Effect of ADHD Drug Treatment on Academic Progress). Andmælendur eru dr. Anders Ekbom, prófessor og forstöðumaður klínískrar faraldsfræði og Miðstöðvar í lyfjafaraldsfræði við Læknadeild Karolinska Institutet og Engilbert Sigurðsson, dósent í geðlæknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á geðsviði Landspítala. Aðalleiðbeinandi var dr. Unnur A. Valdimarsdóttir, dósent og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Dr. Már Másson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00.

 Ágrip úr rannsókn: Þrátt fyrir aukna þekkingu á notkun og virkni geðlyfja fyrir börn síðastliðinn áratug er vaxandi notkun þeirra umdeild í ljósi óvissu um langtímaáhrif lyfjameðferðar og hugsanlegrar of- og misnotkunar. Enn er lítið vitað um áhrif örvandi lyfjameðferðar á námsárangur barna með ADHD. Markmið doktorsverkefnisins var (I) að lýsa mynstri geðlyfjanotkunar meðal allra barna á Íslandi á árunum 2003 til 2007, (II) að bera saman tíðni notkunar ADHD lyfja á Norðurlöndunum og (III) að kanna tengsl námsárangurs og örvandi lyfjameðferðar hjá börnum með ADHD.

Niðurstöður verkefnisins, sem byggja á lýðgrunduðum upplýsingum úr miðlægum gagnagrunnum á Íslandi og Norðurlöndunum, benda til þess  (I) að notkun geðlyfja, einkum örvandi- og þunglyndislyfja, sé hlutfallslega algeng meðal íslenskra barna og (II) að töluverður munur sé á algengi örvandi lyfjanotkunar við ADHD milli Norðurlandanna. Íslensk börn (7-15 ára) voru árið 2007 nærri fimm sinnum líklegri en önnur norræn börn til að fá útleyst ADHD lyf (örvandi lyf eða atomoxetín). Ennfremur benda niðurstöður til þess  (III) að börnum með ADHD sem hefja lyfjameðferð seint sé hættara við að hraka í námi en þeim sem hefja meðferð fyrr, sér í lagi í stærðfræði.

Í doktorsnefnd voru Matthías Halldórsson DSc, læknir á geðsviði Landspítala og fyrrv. landlæknir, dr. Sólveig Jónsdóttir, klínískur lektor við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri taugasálfræði á taugalækningadeild Landspítala og dr. Ulf Bergman prófessor í klínískri lyfjafræði við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi, auk aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinanda.

Utanaðkomandi leiðbeinendur voru dr. Kenneth J. Rothman, prófessor við Faraldsfræði- og Læknadeild Boston University School of Public Health og School of Medicine og dr. Sonia Hernández-Diaz, dósent og forstöðumaður námsbrautar í lyfjafaraldsfræði við Faraldsfræðideild Harvard School of Public Health. Rannsóknirnar hlutu styrki frá RANNÍS og úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið: Helga Zoëga er fædd árið 1976. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1995 og spænskunámi við Universidad de Salamanca ári síðar. Hún lauk BA prófi í stjórnmálafræði og spænsku frá Háskóla Íslands árið 2002. Árið 2006 lauk hún meistaragráðu í megindlegum aðferðum frá Columbia University í New York borg  og hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2007. Helga starfaði áður sem verkefnastjóri lyfjagagnagrunns á Landlæknisembættinu. Hún hefur sinnt kennslu og handleiðslu meistaranema á Heilbrigðisvísindasviði og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Helga hefur verið ráðin sem nýdoktor við faraldsfræðirannsóknir á Mount Sinai sjúkrahúsinu í New York borg og hefur þar störf að doktorsvörn lokinni.

 

 Posted by at 8:10 am

Nýr doktorsnemi

 Uncategorized  Comments Off on Nýr doktorsnemi
Aug 012011
 

Natalia Magdalena Pich hóf doktorsnám við Lyfjafræðisetur 1. ágúst 2011. Natalia lauk M.Sci. námi í efnafræði frá Rzeszow University of Technology í Póllandi í júlí 2010. Natalia hlaut styrk úr Eimskipafélagssjóði til þriggja ára til verkefnisins: Searching for natural product drug leads against neurodegenerative diseases – in vitro and in  silico studies. Leiðbeinandi Nataliu er Elín Soffía Ólafsdóttir. Sjá nánar hér.

 

 Posted by at 12:32 am
WP-Backgrounds Lite by InoPlugs Web Design and Juwelier Schönmann 1010 Wien