Doktorsvörn í lyfjafræði

 Lyfjagerðarfræði  Comments Off on Doktorsvörn í lyfjafræði
Sep 172012
 

Í dag (mánudaginn 17. september)  fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver María Dolores Moya Ortega doktorsritgerð sína „Sýklódextrín hlaup sem lyfjaferjur.“ (Synthesis and characterization of cyclodextrin-based macro- and nanogels for sustained delivery of hydrophobic drugs). Andmælendur eru dr. Hanne Hjorth Tønnesen, prófessor við háskólann í Osló, og dr. Francesco Trotta, prófessor við háskólann í Tórínó á Ítalíu. Leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild. Dr. Már Másson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 14:00.

Ágrip úr rannsókn: Ritgerðin fjallar um þróun á makró- og nanóhlaupum sem lyfjaferjum.  Virkni lyfs byggist ekki aðeins á tengingu lyfjasameindarinnar við lyfjaviðtæki í líkama manna og dýra heldur einnig á hversu auðveldlega lyfjasameindirnar komast að viðtækinu. Lyfjaferjur eru efnasambönd eða nanóagnir sem ferja lyfjasameindir til viðtækja í líkamanum.  Þannig er til dæmis hægt að nota lyfjaferjur til að flytja lyf frá yfirborði augans inn í augað, til að flytja lyf með blóðinu til krabbameinsæxla eða frá blóðrásinni til miðtaugakerfisins. Í doktorsverkefninu voru þróuð vatnssækin nanóhlaup sem lyfjaferjur. Hlaupin eru mynduð úr neti sýklódextrína og vatni.   Sýklódextrín eru hringlaga fásykrur sem geta myndað vatnsleysanlegar efnafléttur með mörgum fitusæknum lyfjum. Sýklódextrín hafa þann eiginleika að auka vatnsleysanleika lyfja án þess að breyta byggingu þeirra eða hæfni til að tengjast lyfjaviðtækjum. Sýklódextrín net voru samtengd með því að mynda krosstengi á milli sýklódextrínsameinda.  Við ákveðin skilyrði var hægt að samtengja net sem mynduðu hlaupkúlur í vatnslausn með um 100 nanómetra þvermál, þ.e. 0,0001 mm. Hlaupkúlurnar eru vatnsleysanlegar og hægt að nota í ýmis lyfjaform svo sem augndropa, nefúða og stungulyf. Sýklódextrínhóparnir sem mynda netið geta bundið fitusækin lyf, þ.e. myndað vatnsleysanlegar efnafléttur með torleysanlegum lyfjum.  Eftir lyfjagjöf bera hlaupkúlurnar lyfjasameindirnar að lyfjaviðtækinu þar sem þær losna frá sýkódextrínhópunum til að tengjast viðtækinu. Í verkefninu var hlaupið notað til að ferja dexametasón inn í augað.

Doktorsritgerðin er byggð á fjórum vísindagreinum í alþjóðlegum tímaritum og einu einkaleyfi. Helsti samstarfsaðili rannsóknarinnar var Lyfjafræðideild háskólans í Santiago de Compostela á Spáni. Doktorsnefnd skipuðu, auk leiðbeinanda, Einar Stefánsson, prófessor í Læknadeild HÍ, Carmen Alvarez Lorenzo, prófessor í Lyfjafræðideild háskólans í Santiago de Compostela, Kim Lambertsen Larsen, dósent í Efnafræðideild Álaborgarháskóla, og Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent í Lyfjafræðideild .

 Posted by at 12:04 am

Ný grein í Carbohydrate Polymers

 Fréttir, Fréttir, Greinar, Lyfjaefnafræði, Nemar, Nemar  Comments Off on Ný grein í Carbohydrate Polymers
Sep 102012
 

Nýlega birtist grein í Carbohydrate Polymers (impact factor 3.628) eftir Berglindi Evu Benediktsdóttur (1. höfundur) ásamt leiðbeinanda hennar (Már Másson). Aðrir meðhöfundar eru samstarfsaðilar við Kaupmannahafnarháskóla og við Lífvísindasetur HÍ og Landspítala.. Greinin heitir  “Regioselective fluorescent labeling of N,N,N-trimethyl chitosanvia oxime formation” Aðrir höfundar eru Kasper K. Sørensen, Mikkel B. Thygesen, Knud J. Jensenb, Þórarinn Gudjónsson og Ólafur Baldursson. Berglind Eva mun verja doktorsverkefni sitt í lok ársins og það telst mjög gott fyrir doktorsnema að ná að birta grein í tímariti með svo háan impact factor.

Hægt er að nálgast greinina hér á heimasíðu forlags.

 Posted by at 5:56 pm
WP-Backgrounds Lite by InoPlugs Web Design and Juwelier Schönmann 1010 Wien