Doktorsvörn í lyfjafræði

 Uncategorized  Comments Off on Doktorsvörn í lyfjafræði
Nov 262012
 

Í dag (mánudaginn 26. nóvember)  fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þetta er fjórða doktorsvörnin frá Lyfjafræðideild á árinu og deildin hefur þá útskrifað um 10% af öllum doktorum við HÍ á þessu ári. Í dag mun J. Sophie R.E. Jensen lyfjafræðingur verja doktorsritgerð sína:Lífvirk náttúruefni úr íslenskum soppmosum – frumdýra- og krabbameinsfrumuhemjandi virkni“ (enska: „Bioactive compounds from Icelandic liverworts – anti-protozoal and cytotoxic activity“).

Andmælendur eru Dr. Lars Bohlin, prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri og deildarstjóri líftækni- og lífefnadeildar Matís.

Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor og meðleiðbeinandi Dr. Sesselja Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild HÍ. Dr. Már Másson, forseti Lyfjafræðideildar HÍ, stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðasal, Aðalbyggingu og hefst klukkan 14.

Soppmosar er hópur frumstæðra mosa, sem framleiða óvenjuleg lífvirk efnasambönd. Þessar plöntur hafa verið notaðar í austurlenskum alþýðulækningum um aldir, aðallega sem þvagræsandi, við krabbameini, bakteríu- og sveppasýkingum.

Markmið rannsóknarinnar var að einangra og ákvarða sameindabygginar efnasambanda úr íslensku soppmosunumMarchantia polymorpha og Chiloscyphus pallescens, með áherslu á lífvirkni gegn krabbameinsfrumum og frumdýrum. Lífvirknileidd einangrun krabbameinsfrumuhemjandi efna, leiddi til bis-bíbensýl efnasambandsins marchantin A. Það hindraði frumufjölgun hjá nokkrum tegundum brjóstafruma, auk þess að sýna samverkandi, frumudrepandi áhrif á krabbameinsfrumur þegar það var gefið með Aurora-A kínasa hindranum MLN8237. Einnig var sýnt fram á hindrandi áhrif marchantin A á nokkur sjúkdómsframkallandi frumdýr, þ.m.t. Plasmodium falciparum sem veldur malaríu. Auk þess sýndi marchantin A hindrun á ensímið PfFAbZ í lifrarformi frumdýrsins sem gæti bent til sjúkdómsfyrirbyggjandi notkunarmöguleika.

Samantekið þá hafa niðurstöður verkefnisins aukið þekkingu á efnafræði þessara tveggja soppmosategunda og sýnt fram á áður óþekkta lífvirkni á sjúkdómsframkallandi frumur í rækt, sem gætu haft lyfjafræðilegt gildi.

Sophie vann um nokkra mánaða skeið að verkefni sínu hjá samstarfsaðilum í Kaupmannahöfn. Virknipróf á frumdýrum fóru fram hjá samstarfsaðilum, Dr. Morten A. Nielsen við Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Deniz Tasdemir við Lyfjafræðideild Lundúnarháskóla. Auk þess var verkefnið að hluta unnið á Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum við Læknadeild HÍ hjá Dr. Helgu M. Ögmundsdóttur sem jafnframt sat í doktorsnefnd Sophie. Auk hennar og leiðbeinenda voru í nefndinni Dr. Jerzy W. Jaroszewski prófessor við Kaupmannahafnarháskóla (hann lést 18. október 2011) og Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ.

J. Sophie R.E. Jensen (f. 1979) lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ 2006 og tók 1 misseri í skiptinámi við Kaupmannahafnarháskóla 2004. Á árunum 2006-7 tók Sophie 3 mánuði í starfsnám á rannsóknastofu hjá Novartis í Boston í Bandaríkjunum, ferðaðist í 3 mánuði um Asíu og Eyjaálfu og vann í hlutastarfi hjá Lyfju og hjá Íshestum. Sophie hóf doktorsnám 2008.

 Posted by at 10:18 am

Doktorsvörn í lyfjafræði

 Uncategorized  Comments Off on Doktorsvörn í lyfjafræði
Nov 192012
 

Í dag (mánudaginn 19. nóvember) fór fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands en þá varði Berglind Eva Benediktsdóttir doktorsritgerð sína „EfnasmíðiN-alkýl-fjórgildra kítósanafleiða og gegndræpisaukandi áhrif þeirra á berkjuþekju“ (N-alkyl Quaternary Chitosan Derivatives for Permeation Enhancement in Bronchial Epithelia). Andmælendur voru dr. Ben Forbes, dósent við King‘s College London, og dr. Jón Valgeirsson, framkvæmdastjóri þróunareiningar Actavis á Íslandi. Leiðbeinendur voru dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild og dr. med. Ólafur Baldursson lungnalæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala.

Ágrip úr rannsókn: Lyfjagjöf flestra líftæknilyfja takmarkast við stungulyfjaform sem oft fylgir sýkingarhætta og erting á stungustað. Lyfjagjöf með innöndun hefur því verið talinn álitlegur kostur en aðgengi lyfja eftir þessari leið takmarkast af litlu gegndræpi lungnaþekjunnar. Það mætti bæta lyfjagjöf eftir þessari leið með frásogshvötum sem auka gegndræpi lungnaþekjunnar en þar eru vatnsleysanlegar afleiður kítósans mjög áhugaverður kostur.

Markmið doktorsverkefnisins var að smíða fjórgildar kítósanafleiður með betur skilgreinda byggingu en áður hefur verið gert og ákvarða sambandið á milli lengdar N-alkýl keðju þeirra og gegndræpisaukandi áhrifa í berkjuþekjumódeli. Með nýju efnasmíðaleiðinni tókst að smíða kítósanafleiður með hátt hlutfall fjórgildingar (N-alkýl-N,N-dímetýl kítósan, 85-100%), án óæskilegra hliðarhvarfa sem einkenna oft afleiður af þessari gerð. Jafnframt tókst að ákvarða nákvæma byggingu afleiðanna. Fljúrljómandi hópur var tengdur sértækt inn á fjórgilda trímetýlkítósanafleiðu (TMC) og staðsetning hennar í VA10 berkjuþekjufrumulínunni ákvörðuð. VA10 reyndist líkja vel eftir þeim þekjuvefseiginleikum sem lungun hafa og var því notuð til að kanna gegndræpisaukandi virkni kítósanafleiðanna. Eftir því sem að N-alkýl keðjan á afleiðunum var lengri, því meiri varð gegndræpi, riðlun þéttitengja og minni lífvænleiki í röðinni: hexýl ≈ bútýl > própýl > metýl (TMC). TMC reyndist því vera sú afleiða sem jók gegndræpi í berkjuþekjunni án þess að hafa varanleg áhrif á lífvænleika hennar og er því vænlegur kostur í frekari þróun innöndunarlyfjaforma.

Rannsóknin var unnin við Lyfjafræðideild og Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Háskóla Íslands og við Lífvísindadeild Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsverkefnið og tengd rannsóknaverkefni voru fjármögnuð af Eimskipasjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Vísindasjóði og Tækniþróunarsjóði RANNÍS, Markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis og um örtækni, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Þorsteinssonar og Vísindasjóði Landspítala.

Doktorsnefnd skipuðu, auk leiðbeinenda, Knud J. Jensen, prófessor við Lífvísindadeild Kaupmannahafnarháskóla, Sesselja Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og Þórarinn Guðjónsson, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.

Berglind Eva Benediktsdóttir er fædd í Svíþjóð árið 1982. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut I frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2002 og MS gráðu í lyfjafræði við Háskóla Íslands árið 2007.

 Posted by at 11:32 am
Nov 162012
 

Mánudaginn 12. nóvember sl. varði Elsa Steinunn Halldórsdóttir doktorsritgerð sína, Lýkópódíum alkalóíðar og virkni þeirra á asetýlkólínesterasa in vitro og in silico – vitræn hönnum og hlutsmíði virkra afleiða (enska: Lycopodium alkaloids and their acetylcholinesterase inhibitory activity in vitro and in silico: rational design and synthesis of derivatives).

Andmælendur voru Dr. Judith Rollinger, prófessor við  Leopold-Franzens Háskólann í Innsbrück í Austuríki og Dr. Stefán Jónsson, deildarstjóri þróunardeildar lyfjaforma hjá Actavis. Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna.

Lýkópódíum alkalóíðar eru náttúruefni sem framleidd eru af hópi ævafornra gróplantna sem kallast jafnar. Sumir þessara alkalóíða hafa reynst öflugir hindrar á ensímið asetýlkólínesterasa (AChE) og gætu því mögulega nýst í læknisfræðilegum tilgangi gegn taugahrörnunarsjúkdómum á borð við Alzheimer. Markmið verkefnisins var að rannsaka alkalóíðainnihald íslenskra jafnategunda, einangra og ákvarða sameindabyggingu þeirra og kanna hindrunaráhrif á AChE in vitro. Sameindahermun in silico verður notuð til að hanna enn virkari afleiður af alkalóíðunum sem gætu jafnframt hentað til hlutsmíða.Rannsóknir á efnainnihaldi jafnategundanna lyngjafna og litunarjafna, leiddu til einangrunar og auðkenningar tveggja nýrra og 15 áður þekktra alkalóíða. Allir tilheyra þeir lýkópódín grunnbyggingarflokki og sýndu litla hindrun á AChE ensímið in vitro. Niðurstöður in silico sameindahermunar gáfu þó til kynna að auðvelt væri að hanna mjög virkar afleiður af þessum alkalóíðum. Annótínól var hlutsmíðað og reyndist vera um 100 sinnum sterkari hindri in vitro en náttúrulega forefnið annótín.

Verkefnið hefur aukið þekkingu á sambandi á milli byggingar alkalóíða af lýkópódínflokki og verkunar þeirra á AChE. Niðurstöður benda til þess að in silico sameindahermunaraðferðin sem þróuð var, geti spáð fyrir um virkni alkalóíða af þessum flokki á ensímið og mögulega nýst í leitinni að nýjum lyfjasprotum gegn Alzheimer og öðrum taugahrörnunarsjúkdómum í framtíðinni. Verkefnið var unnið að hluta við Lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla hjá Dr.  Jerzy W. Jaroszewski prófessor sem jafnframt sat í doktorsnefnd Elsu. Hann lést 18. október 2011. Auk hans og leiðbeinanda voru í nefndinni Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ, Dr. Kristín Ingólfsdóttir prófessor við Lyfjafræðideild og rektor HÍ og Dr. Guðrún Valgerður Skúladóttir, vísindamaður við Lífeðlisfræðistofnun HÍ.

Elsa Steinunn Halldórsdóttir (f. 1977) lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ 2003. Elsa vann við lyfjaefnagreiningu og stöðugleikaprófanir hjá Actavis frá 2003-5.

 Posted by at 11:28 am
WP-Backgrounds Lite by InoPlugs Web Design and Juwelier Schönmann 1010 Wien